HUGLEIÐSLA

Hvað er hugleiðsla?

Skýrust og einföldust skilgreining á hugleiðingu/hugleiðslu er stöðug hugareinbeiting að einhverju völdu viðfangsefni. Hugleiðandinn heldur viðfangsefninu stöðugu í vitundinni, sem getur verið hlutur, orð, hugtak eða einhvers konar eiginleiki. Eftir að hafa æft sig í nokkurn tíma mun hugleiðandinn upplifa sameiningu við hugleiðingar viðfangsefnið og færast í ástand sem kallast hugleiðsla. Við höfum þá: einbeitingu, íhugun, hugleiðslu (Ananda Tara Shan, 1988).

Hvers vegna að hugleiða? 

Á sama hátt og hæfnisþjálfun veitir stjórn á efnislíkamanum, mun hugleiðing veita betri stjórn á hugsunum, tilfinningum og öllu atferli. Með hugleiðsluiðkun lærist að hafa stjórn á persónuleikanum, þroska háleita hæfileika og öðlast stöðugt betri skynjun á grundvallareiningu lífsins (Ananda Tara Shan, 1988).

Alice A. Bailey segir eftirfarandi um hugleiðsluiðkun:

  1. a) Við reglulega hugleiðsluiðkun myndast hægt og örugglega samband milli sálar og verkfæris hennar þ.e. persónuleikans þar til sú stund rennur upp að sál og persónuleiki renna saman í eitt.
  2. b) Hinn vísindalegi tilgangur með hugleiðsluiðkun er þar af leiðandi að gera manneskjunni kleift að verða í sinni ytri birtingu það sem hún raunverulega er hið innra, að hún samsami sig birtingu sálar sinnar en ekki aðeins eiginleikum persónuleikans.
  3. c) Hugleiðsluiðkun er leiðin til uppljómunar.
  4. d) Þar af leiðandi er hugleiðsla skipulagt ferli manneskjunnar í að finna guðdóminn (Bailey, 1969).

Langtímamarkmið hugleiðsluiðkunar er að hugleiðandinn byggi upp stöðugra samband við hærra sjálf sitt (sálina). Það gerist fyrir áhrif hugleiðsluiðkunar sem veldur því að líkamirnir hreinsast hægt og örugglega og orkustöðvarnar samtengjast eftir vissri forskrift þannig að farvegurinn (antahkarana) milli hærra sjálfsins og persónuleika styrkist.

Það sem átt er við með að líkamirnir hreinsist smátt og smátt er að í gegnum mörg líf hefur persónuleikinn áskapað sér bæði jákvæða og neikvæða eiginleika. Hinir neikvæðu eiginleikar manneskjunnar mynda skugga hennar og dregur niður sveiflutíðni árunnar. Hækkun sveiflutíðni er forsenda þess að einstaklingur sem hugleiðir nái að tengja sig inn á hærra vitundarsvið. Við hugleiðsluiðkun sem og aðra andlega iðkun vinnur einstaklingurinn að því að upphefja neikvæða eiginleika sína og við það hreinsast áran smátt og smátt og hækkar sveiflutíðni sína. Neikvæðir eiginleikar umbreytast yfir í jákvæða eiginleika svo sem reiði í umburðarlyndi, hatur í ást eða kærleika o.s.frv.

Farveginn eða vitundarbrúna (Antahkarana) milli sálar og persónuleika geta skyggnir séð sem ljóslínu sem liggur frá hjartastöðinni upp eftir hryggsúlunni upp og út í gegnum hvirfilinn upp til sálarinnar en hana má m.a. sjá sem ljós fyrir ofan höfuðið. Það að byggja upp samband milli persónuleika og sálar er oft líkt við að byggja brú milli lægri huga persónuleikans og hærri hugans (e. the higher mind), lægstu birtingar sálarinnar.

Hvernig á að hugleiða, nokkur atriði til umhugsunar

Stelling
Sitjið í góðum stól með beint bak, fætur í gólfi og hendur í kjöltu eða í lótusstellingu á gólfi eða í sófa.

Slökun
Áður en farið er að hugleiða er nauðsynlegt að ná góðri slökun, bæði í efnis-líkamanum, geð- og huglíkama þ.e. róa hugsanir og tilfinningar. Einfaldasta leiðin er að beina athyglinni að andardrættinum og anda djúpt og meðvitað nokkra stund á meðan hugsanir og tilfinningar róast. Það ætti að gerast í eðlilegu framhaldi af því að hægt er á öndun.

Sjónsköpun
Sum sjá fyrir sér það sem er að gerast í hugleiðslunni, en önnur sjá ekki neitt. Þess í stað skyna þau smátt og smátt með æfingunni það sem er að gerast frekar en að sjá það. Áhrifin af hugleiðslunni eru þau sömu, hvort sem viðkomandi sér það sem er að gerast eða ekki.

Einbeiting
Einbeiting er nauðsynlegur þáttur í hugleiðslu og kemur í veg fyrir að hugurinn hvarflar til og frá. Markmiðið er ekki endilega að tæma hugann líkt og með sumum austrænum hugleiðsluaðferðum heldur að halda einbeitingu við hugleiðslu-viðfangsefnið. Ef upp koma hugsanir sem trufla þig reyndu ekki að þvinga þær burt heldur skoðaðu þær hlutlaust og láttu þær líða burt af sjálfu sér. Haltu síðan áfram að einbeita þér að hugleiðslu-viðfangsefninu.

Notkun tónlistar
Áhrif hugleiðslu má dýpka með notkun tónlistar. Tónlist er orka og með réttri notkun tónlistar má auka mátt skapandi hugsunar auk þess sem sambandið við innri heima styrkist. Ef þú ert ekki viss hvaða tónlist skyldi nota hafðu þá í huga róandi og upplyftandi tónlist, sem veitir tilfinningu fyrir því að þú víkkir út vitund þína. Tónlistin hjálpar þér einnig að kyrra hugsanir og slaka á.

Hversu lengi á að hugleiða
Mikilvægt er að hugleiða á hverjum degi a.m.k. um hálfa klukkustund. Gott er að hugleiða fyrst á morgnana því þá er hugurinn kyrr og auðveldara að stilla sig inn á hærri vitundarsvið. Hálftími tvisvar á dag gefur bestan árangur. Einnig er t.d. hægt að hugleiða í hálf tíma á dag og fara síðan með möntrur og bænir í hálf tíma eða samtals í um eina klst.

Vandamál
Truflun
Útskýrðu fyrir öðrum fjölskyldumeðlimum að þú þurfir næði þegar þú hugleiðir. Einnig er þörf á að taka símann úr sambandi.

Tímaskortur
Mörg setja fyrir sér tímaskort. Hafið í huga að með bættri vellíðan og aukinni einbeitingu og úthaldi sem næst við reglulega hugleiðsluiðkun verða afköstin meiri og opnað er fyrir aukið flæði sköpunar og ljóss inn í daglegt líf. Agi er því nauðsynlegur eins og ávallt þegar árangri skal náð.

SHAN guðspeki-hugleiðslukerfið

Logahugleiðslan
Logahugleiðslan er komin frá Meistaranum D.K. í gegnum Anöndu Töru Shan. Hún er fyrsta skrefið í Shan hugleiðslukerfinu sem kennt er af Guðspekisamtökunum. Logahugleiðan er undirstaða þessa hugleiðslukerfis og er mælt með því að fara með hana daglega árið um kring. Logahugleiðslan notar orku átta loga til þess að hreinsa og koma jafnvægi á innri og ytri líkamina, sem gerir okkur kleift að skilja betur og opna okkar fyrir okkar æðstu birtingu, Andanum. Í hugleiðslunni vinnum við með birtingu Andans og sálarinnar sem kölluð er Ég Er Nærvera ásamt því að útbreiða Ljósið. Logahugleiðslan hjálpar þér að breyta persónuleika þínum með því, smátt og smátt, að færa guðlega eiginleika sálar þinnar niður í dagsvitund þína og hjálpar þér að veita ljósi inná öll svið þíns daglega lífs.

Puja
Hugleiðsla þar sem Pujan er notuð hjálpar að þroska og hreinsa eiginleika hollustu gagnvart Heimskennara jarðarinnar, Kristi sem og kennaranum innra með þér, sál þinni. Pujan hjálpar þér að þroska með þér andlegt líf í jafnvægi, sem sameinar það að sinna skyldum og ábyrgð hins daglega lífs og það að næra meðvitað og samstillt samband við hin himnesku svið. Auk þess að nota Pujuna sem sjálfstæða hugleiðslu er hægt er að nota hana sem inngang eða ramma utan um aðra hugleiðslu, bænastund eða andlega athöfn.

17 þrep til fullkomnunar
Plánetur sólkerfisins mynda til samans fullkomlega samræmda og athafnaríka eiginleika, og hlutverk þeirra er m.a. að yfirfæra þessa fullkomnu heild í áru manneskjunnar. Samtals eru dyggðirnar 49 og gera þær manneskju sem nær valdi á þeim að fullkominni manneskju. Þessar dyggðir eru ræktaðar með því að fara í plánetu-hugleiðslurnar 17 sem tilheyra þessu kerfi, 17 þrepum til fullkomnunar. Hver pláneta hugleiðsla stendur fyrir þrjár dyggðir og að auki er ein hugleiðsla sem kallast hrynjandi Alheimsins. Þetta gera samtals 49 dyggðir. Æfingarnar beinast því að þroska einstaklinginn með því að greypa jákvæða eiginleika inn í líkama og sál. Hægt er að velja milli plánetu-æfinga út frá dyggðum þeirra, stjörnukorti viðkomandi eða taka þær einfaldlega eftir röð.

Heimildaskrá:
Ananda Tara Shan (2024). 17 Steps to perfection. The Theosophical Fellowship.
Bailey, A.A. (1969). From intellect to intuition. Lucis Publishing Company.

Eldey Huld Jónsdóttir